Garnbúðin mín

Smá fyrirvari

Ég veit að ég hef örugglega gleymt að minnast á marga sem ættu skilið að vera í þessum pistli og bið þá aðila fyrirfram forláts. Tilgangurinn er ekki að vera með tæmandi umfjöllun um garnverslanir heldur vekja athygli á mikilvægi þess að styðja við fjölbreytt smærri fyrirtæki og innlenda framleiðslu.

Myndirnar í pistlinum eru stolnar af netinu og hafa birst mér á FB í gegn um tíðina. Ég hef vistað þær jafnóðum þar sem mér finnast þær svo fallegar og langaði að lofa öðrum að njóta.

Fátt er skemmtilegra en góður handavinnuhittingur

Garnbúðin mín
 Þegar ég ferðast erlendis hef ég gert það að vana mínum að athuga hvort og þá hvernig garnverslanir eru í nágrenninu. Alltaf gaman að koma í nýjar garnverslanir, sjá hvað er í boði, gramsa og jafnvel reyna að finna eitthvað nýtt og spennandi sem ekki er til hér heima. Það er skemmst frá því að segja að yfirleitt verð ég fyrir vonbrigðum og niðurstaðan að hér á Íslandi séu og flottustu garnverslanirnar og garnúrvalið mest og best þó víða sé leitað. Allavega miðað við höfðatölu hljótum við að setja met í fjölda garnverslana, úrvali og gæði þeirrar vöru sem í boði er. Oftast kaupi ég ekkert heldur hugsa „Ég get alveg eins keypt mér band heima á Íslandi“.

Jafnvel kanínur prjóna.

Við erum góðu vön
Við sem prjónum hér á Íslandi erum góðu vön – mikið framboð á garni í öllum gæðaflokkum og auðvelt aðgengi að flestu sem lýtur að okkar yndislega áhugamáli prjónalífinu og öllu sem því viðkemur. Við getum valið úr fjölda búða, skoðað, þreifað á, keypt, farið í prjónakaffi og á allskonar prjónaviðburði, námskeið og samprjón.

 Íslenskt band
Til eru allmörg íslensk smáfyrirtæki sem framleiða og/eða lita band úr íslensku hráefni eða hráefnisblöndum. Þar má nefna meðal annarra: Hespuhúsið, Einrúm, Þingborg, Uppspuna, Dóruband, Helene Magnússon, Forystufé, Slettuskjótt, Hörpugull og Gilhaga auk þeirra sem farin eru að láta vinna eigin ull í band sem hægt er að fá keypt beit frá býli. Það er sum sé ýmislegt í boði og full ástæða til að hvetja prjónara til að kaupa band af þessum framleiðendum, hanna og prjóna úr því enda um úrvals hráefni að ræða.

Kósý og kötturinn yfirleitt ekki langt undan.

Handlitað band

Við eigum líka fullt af frábærum handliturum sem handlita innflutt band sem stenst fullkomnlega samaburð við það besta sem finna má í „útlandinu“. Þar má nefna meðal annarra: Hex Hex Dyeworks, Mal, Vatnsnes, Eddu Lilju, Sveinu Björk, Systrabönd, Today I feel Yarn og örugglega fleiri sem ég er að gleyma. Úrvalið er mikið og gott.

Allar fínu garnverslanirnar

Þá eru ónefndar yndislegu prjónabúðirnar sem við getum heimsótt og skoðað allt góssið sem þar finnst.....og kannski keypt í næsta verkefni. Ég nefni Storkinn, Litlu Prjónabúðina og Maro í Reykjavík og Garn í Gangi á Akureyri. Allt eru þetta búðir sem bjóða upp á mikið úrval af gæðagarni, prjónum og allskonar fylgihlutum. Fleiri búðir er að finna vítt og breitt um landið og þetta alls ekki tæmandi listi þó þetta séu þær sem ég heimsæki oftast. Í síðustu viku hefði Amma mús verið á þessum lista en hún virðist hafa lent í músagildrunni!

..og refir prjóna….

Vefverslanir
Við eigum líka margar góðar vefverslanir sem flytja inn band sem hægt er að panta og mín reynsla er að þjónustan sé yfirleitt góð og bandið fljótt að berast sé það pantað á netinu. Ég nefni garn og Gjafir og Naturaknitting þar sem ég hef verslað við þessa aðila sem flytja inn gæðaband og veita góða þjónustu.

Við þurfum að vanda okkur við að kaupa band
En af hverju er ég að að skrifa um þetta? Kannski vegna þess að mig langar að hvetja prjónara til að hugsa um hvað það er mikilvægt fyrir okkur að hafa aðgang að öllu því sem hér er framantalið. Og til þess að tryggja að garnverslanir og smáframleiðendur geti haldið sinni starfsemi gangandi þurfum við sem prjónum að styðja við þessa starfsemi, t.d. með því að prjóna úr íslensku bandi og/eða versla við innlendar smærri verslanir.

Kolefnisspor og dýravelferð
Við þurfum líka að spyrja okkur hvaðan hráefnið sem við erum að nota kemur? Hvert er kolefnissporið? Hvernig er dýravelferð háttað? Í hvaða vasa renna aurarnir sem við notum til að kaupa okkur band í prjónaverkefnin okkar?

Krútt

Gæðastundir í garnbúðinni
Upp á síðkastið hef ég velt þessum hlutum æ meira fyrir mér þegar ég kaupi mér band. Mér finnst gaman að fara í Garnbúðina MÍNA, fá mér kaffibolla, spjalla við starfsfólkið og gefa mér góðan tíma til að spá og spekúlera. Fletta bókum og blöðum. Á hraðferðum mínum til Reykjavíkur eru þetta einu búðirnar sem ég nenni að fara í. Ég les mér til um bandframleiðendur og kaupi frekar band „beint frá býli“ ef ég get og reyni að styðja við smærri framleiðendur enda má færa rök fyrir því að smáiðnaðarvara er yfirleitt persónulegri, fallegri og meira lífræn en fjöldaframleidd „Made in China“ vara.

Vinkonu- og mæðgnaprjón er best

Magn eða gæði - kannski bæði?
Sumir benda á kostnað og segjast ekki hafa efni á að kaupa dýrt band heldur fara frekar á staði þar sem hægt er að kaupa meira magn en gæði fyrir sama pening. Á móti segi ég að ef við erum á annað borð að leggja í þá vegferð að prjóna flíkur á okkur eða okkar nánustu þá eigum við að gera sjálfum okkur þann greiða að kaupa vandað, fallegt og endingargott band. Það má líkja þessu við matreiðslu, við eldum  berti mat ef við notum gott hráefni. Sama á við um prjónaðar flíkur. Gott band, betri flík.

LYS – Stendur fyrir Local Yarn Store
Síðasta laugardag í apríl ár hvert er haldinn alþjóðlega hátíðlegur Local Yarn Store dagurinn. Þessi dagur er til að vekja prjónara til meðvitundar um að styðja við minni framleiðendur og “local” (sem mætti þýða “nærumhverfi”) garnverslanir svo þær geti haldið velli í harðnandi samkeppni við stórfyrirtæki sem vilja fá sinn bita af kökunni. Nú er í tísku að prjóna og þá vilja risarnir vera með. Svona eins og matvöruverslanir sem fara að selja bækur fyrir jólin. Ég segi fyrir mig að mér finnst miklu meira gefandi ef ég ætla að kaupa bók að fara í kósý bókabúð, gramsa og jafnvel fá mér kaffibolla - og það sama á við um garnverslanir.

Gleðilegt Prjónalíf kæru prjónarar.

 

Next
Next

Knitting in nature