too many sweaters?
Þetta hugsa ég stundum þegar ég er enn eina ferðina nýbúin að kaupa mér garn í nýja peysu (sem mig vantar ekki) og verður litið inn í fataskápinn – sem er; svo vægt sé til orða tekið stútfullur af heimaprjónuðum peysum sem eru mis mikið notaðar. Og þetta er ekki lítill fataskápur!! Við nýafstaðna flutninga á milli landshluta var tekin sú sársaukafulla ákvörðun að selja/gefa/losa sig við nokkrar sem komu í ljós alveg aftast í gamla fataskápnum – já reyndar alveg steingleymdar. Sem þýðir í raun að þeirra var ekki saknað, jafnvel árum saman. Og er það þá ekki vísbending um að þær mættu missa sig? Í raun og veru má segja að það dugi vel meðalmanneskju að eiga 2 - 4 ullarpeysur. Sumir eiga reyndar enga og sakna þess ekki neitt. Þekki þannig fólk. Finnst flís jafnvel betra...sem er í raun óskiljanlegt! En sumum er ekki viðbjargandi.
Las fyrir nokkru viðtal við ungan mann sem átti ofvirka ömmu sem gaf honum heimaprjón alltaf þegar hann átti afmæli eða á jólum. Amma rosa dugleg í sinni herferð að klæða allafjölskylduna í ullarfatnað þrátt fyrir ákveðna tregðu sumra að ganga í herlegheitunum. Pilturinn var í mesta basli, hafði engan áhuga á öllum þessum prjónaflíkum en kunni ekki við að særa ömmu. Játaði reyndar þau landráð í viðtalinu að honum þætti hefðbundin lopapeysa ljót og að hann hefði engan áhuga á slíkum flíkum. Ég saup hveljur og vonaði bara að þessu yrði ekki mikið deilt á FB. Við vitum öll hvað getur gerst þar ef fólk viðrar óvinsælar skoðanir!!
En aftur að spurningu dagsins. Er hægt að eiga of margar heimaprjónaðar peysur? Hver er tilgangur þess að eiga svo margar peysur að þrátt fyrir góða viðleitni komist maður aldrei yfir að nota nema hluta þeirra? Sumar eru orðnar of litlar enda orðnar 30 ára gamlar plús og mittið hefur jú eitthvað breikkað með árunum, sumar of heitar enda vita allar konur sem komnar eru yfir 45 ára aldurinn að lokaðar ullarpeysur eru ekki málið þegar kona, í svitabaði, þarf að rífa sig úr (helst öllu) á fimm mínútna fresti. Sumar falla einfaldlega ekki í kramið lengur þótt þær hafi þótt fallegar á sínum tíma en geyma góðar minningar t.d. rauða kaðlapeysan sem bjargaði fyrstu óléttunni eða svarta og hvíta lopapeysan sem yljaði í hestaferðinni yfir Kjöl sumarið 1995 og svo mætti lengi telja.
Þar sem skápapláss er dýrmætt og umhverfisverndarstefna dagsins í dag að safna ekki að sér óþarfa drasli og dóti hef ég upp á síðkastið staðið fyrir framan peysuhillurnar í fataskápnum og hugsað: “Þetta er að sjálfsögðu bilun! Nú annaðhvort hætti ég að prjóna mér peysur eða fækka í þessu safni. Eftir að hafa farið í gegn um stabbann sem er frekar há tveggja stafa tala og ekki fundið eina einustu peysu sem mátti missa sig þá er niðurstaðan að: “Nei það er ekki hægt að eiga of margar heimaprjónaðar peysur.”
Af hverju? Vegna þess að yndið og sköpunarkrafturinn sem prjónakonan hefur af því að halda á prjónunum verður ekki metið til fjár. Vegna þess að gleðin yfir því að skarta nýrri og vel heppnaðri peysu jafnvel þó hún sé númer 54 í röðinni verður ekki metið til fjár. Vegna þess að tilfinningin og spenningurinn sem fylgir því að kaupa nýtt garn, hanna og ákveða næstu peysu og hefja verkið, takið eftir “hefja verkið”, það er ekki alltaf jafn gaman að klára ;) verður ekki metið til fjár.
Þegar ég horfi á og handleik peysurnar mínar sé ég líf mitt síðastliðin 30 ár. Árið sem frumburðurinn fæddist og prjónaði ég fallegu bláu peysuna með bleika munstrinu og köðlunum. Sumarið góða sem við fórum í ferðalagið á Strandir var glíman háð við gráu útprjónuðu alpakapeysuna, sem að ef hún væri vinnuvél væri fyrir lifandis löngu komin með óteljandi vinnustundir við að halda hita á eigandanum. Og löngu afskrifuð þó garnið væri “súpa hveljur” rándýrt á sínum tíma. Fallega bláa jakkapeysan sem ég prjónaði á spítalanum þegar mamma var veik. Hvíta kaðlapeysan með ísettu ermunum sem ég var að prjóna á meðan beðið var eftir fyrsta barnabarninu o.s.frv. Já þær segja mér sögu um líf mitt.
Og þar af leiðandi er niðurstaðan NEI - fyrir mig er ekki hægt að eiga of margar handprjónaðar peysur. Hvers vegna? Vegna þess að þær eru svo miklu meira en flíkur til að halda hita á eigandanum, þær geyma minningar um önnum kafnar hendur, stað og stund sem þær voru prjónaðar á, lausnir á allskonar aðferðafræði sem þroskar og stælir heilann, gæða samverustundir með öðru prjónafólki eða í sófanum fyrir framan góðan sjónvarpsþátt og bara svo margt gott og fallegt. Er hægt að tengja prjón við eitthvað sem er ekki gott og fallegt?
Þannig að ég er búin að ákveða að eiga áfram allar handprjónuðu peysurnar sem ég nota sjaldan og jafnvel aldrei og líka hinar sem ég fer í daglega. Ég er líka búin að ákveða, alveg samviskulaust, að prjóna mér margar í viðbót á næstu árum. Ég kaupi mér bara stærri fataskáp!!